Nú eru taldar minni líkur á því en áður að breska ríkið þjóðnýti Northern Rock bankann sem átt hefur í miklum fjárhagserfiðleikum að undanförnu, til að mynda vegna skuldar við hið opinbera.

Undanfarnar vikur hefur orðrómur verið uppi um að ríkið myndi þjóðnýta bankann vegna mikilla skulda hans. Ríkisstjórnin hefur þess í stað boðist til að aðstoða einkafyrirtæki sem kann að taka yfir bankann.

Goldman Sachs hefur gert tilboð í Northern Rock en í því felst að bankinn leysi til sín skuldir Northen Rock til ríkisins gegn hlutabréfum.

BBC greinir frá þessu í dag og hefur Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands þegar lýst yfir stuðningi við áætlun Goldman Sachs.

Samkvæmt áætlun Goldman Sachs myndu hlutabréfin vera í opinberri eign en síðar seld fagfjárfestum þegar aðstæður leyfa. Niðurstaðan er engu að síður svo að breska ríkið mun með þessum hætti styðja við bakið á Northen Rock næstu árin eða þangað til ríkið selur hlut sinn í bankanum.

Goldman Sachs lagði tillögu sína fyrir forsætisráðherrann í upphafi vikunnar og hefur hann notað tímann síðan þá til að velta þessu fyrir sér. BBC greinir frá því að Brown hafi nú samþykkt tilboð bankans og það verði tilkynnt opinberlega á morgun.

Mótmæli frá Evrópusambandinu

Það er þó ekki öruggt að hægt verði að gera slíkan samning þar sem Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kann að setja sig á móti honum. Fyrir liggur samþykki Evrópusambandsins um að ríkisstjórnir standi ekki að baki fjármálastofnunum með þessum hætti til lengri tíma.

Því verður lög áhersla á að leggja fram áætlun um sölu hlutbréfa ríkisins í bankanum við fyrsta tækifæri. Samkvæmt heimildum BBC leggur fjármálageirinn áherslu á að fá að kaupa bréfin við fyrsta tækifæri.