Vaxandi verðbólguþrýstingur hefur minnkað líkurnar á vaxtalækkun Seðlabanka Evrópu á þessu ári. Verðbólguþrýstingurinn gæti orðið til þess að gripið yrði til vaxtahækkana þrátt fyrir að vöxtur fari minnkandi og evran sé í sínu hæsta gildi frá því myntin var fyrst kynnt árið 1999. Þetta kemur fram í The Wall Street Journal í dag.

Þar er haft eftir Erkki Liikanen, bankastjóra seðlabanka Finnlands, að verðbólguhættan sé raunveruleg, en Finnland er hluti af evrusvæðinu. Liikanen leggur áherslu á að meginmarkmiðið sé að ná niður verðbólgu og sagan sýni að ef það mistakist hafi það neikvæð áhrif á vöxt til lengri tíma.

Vísbendingar um ólík sjónarmið innan Seðlabanka Evrópu

Liikanen, sem að sögn WSJ er stjórnmálafræðingur að mennt og fyrrverandi forsætisráðherra Finnlands, hefur verið bankastjóri Seðlabanka Finnlands í fjögur ár. WSJ segir að  hann sé álitinn hófsamur í 21 manns stjórn Seðlabanka Evrópu og hafi ekki tekið undir aðvaranir nokkurra stjórnenda bankans um að vextir kynnu að verða hækkaðir vegna verðbólguþrýstings, sem sé vísbending um að ólík sjónarmið séu að koma upp á yfirborðið hjá stjórnendum Seðlabanka Evrópu.