*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 17. október 2014 08:13

Minni loðnukvóti áfall fyrir útgerðina

Veiðigjöldin lækka um 780 milljónir fái Íslendingar 130 þúsund tonna loðnukvóta í stað 308 þúsund tonn líkt og vonir stóðu til.

Ritstjórn
Aðsend mynd

„Það er skelfilegt fyrir samfélagið að verða þarna af útflutningsverðmætum upp á 15 til 20 milljarða. Þetta er mikið högg fyrir iðnaðinn og þetta er mikið högg fyrir samfélagið. Mikil vonbrigði,“ segir Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, í samtali við Morgunblaðið.

Hafrannsóknarstofnun hefur lagt til að heildaraflamark á loðnu verði 260 þúsund tonn, en væntingar voru um að upphafskvóti á loðnu yrði 450 þúsund tonn. Að frádregnum heimildum skipa frá hinum Norðurlöndunum verður kvóti Íslendinga um 130 þúsund. Þýðir þetta að veiðigjöldin vegna loðnuveiða lækka úr tæplega 1,3 milljörðum króna í um 520 milljónir, eða um 780 milljónir króna.

Jóhann Guðmundsson, skrifstofustjóri skrifstofu sjávarútvegs og fiskeldis í atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytinu, segir í samtali við Morgunblaðið að þetta sé mikið áfall fyrir útgerðina og þjóðarbúið. Verið sé að reikna út áhrifin, en hann leggur áherslu á að ekki sé beint samband á milli magns og verðmætis þar sem ætla megi að stór hluti aflans fari fyrst í hrognavinnslu og á Japansmarkað, þar sem hærra verð fáist fyrir afurðirnar en fyrir fiskimjöl.