Aflaverðmæti íslenskra skipa nam tæplega 31 milljarði króna á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2008 samanborið við tæplega 33 milljarða á sama tímabili í fyrra, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Aflaverðmætið hefur því dregist saman um nálægt tvo milljarða eða 6,5% milli ára, fyrst og fremst vegna minni loðnuveiða í vetur.

Verðmæti loðnuaflans nam 4,2 milljörðum króna á vertíðinni 2007 en aðeins 1,7 milljarði króna á síðustu vertíð. Á móti kom aukinn kolmunnaafli og síldarafli fyrstu fjóra mánuði þessa árs þannig að í heild minnkuðu verðmæti uppsjávarafla um einn milljarð króna milli ára og urðu 5 milljarðar króna.

Aflaverðmæti botnfisks janúar til apríl 2008 var liðlega 24 milljarðar sem er sambærilegt við sama tímabil árið 2007. Verðmæti þorskafla var 13 milljarðar og dróst saman um tæp 5% frá fyrra ári.

Aflaverðmæti ýsu nam 5,7 milljörðum, jókst um 16% og verðmæti ufsaaflans nam 1,4 milljarði sem er 14,5% samdráttur miðað við fyrstu fjóra mánuði ársins 2007. Verðmæti flatfiskafla janúar til apríl nam 1,3 milljarði og dróst saman um 6,2% frá fyrra ári.

Verðmæti afla, sem seldur er í beinni sölu útgerða til vinnslu innanlands nam 13,1 milljarði króna sem er samdráttur um 2,1 milljarða eða 13,8% frá fyrra ári. Verðmæti afla sem keyptur er á markaði til vinnslu innanlands dróst saman um 7,4%, nam 5,3 milljörðum fyrstu fjóra mánuði ársins.

Aflaverðmæti sjófrystingar nam 8,1 milljarði, dróst saman um 4,1% og verðmæti afla sem fluttur er út óunninn nam 3,5 milljörðum og jókst um 25,8% frá sama tímabili árið 2007.