*

þriðjudagur, 25. febrúar 2020
Innlent 24. janúar 2020 11:16

Minni losun vegna falls WOW og Primera

Losun frá flugsamgöngum dróst saman um 44% á árinu 2019. Samdráttinn má rekja til fækkunar flugfélaga í millilandaflugi.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Samkvæmt bráðabirgðaútreikningum hefur losun CO2 ígilda frá flugsamgöngum dregist saman um 44% á milli áranna 2018 og 2019. Samdráttinn má rekja til fækkunar flugfélaga í millilandaflugi, en tvö íslensk flugfélög, WOW air og Primera Air, hættu rekstri í lok árs 2018 og upphafi árs 2019. Losun í flugrekstri jókst hins vegar um 5% á milli áranna 2017 og 2018. Losun sem hér um ræðir tekur eingöngu tillit til reksturs íslenskra félaga, en ekki losunnar vegna flugferða erlendra flugfélaga sem hafa viðkomu á Íslandi. Hagstofa Íslands greinir frá þessu.

Í frétt Hagstofunnar segir að losun frá sjóflutningum hafi aukist töluvert árið 2018 en verið svipuð milli áranna 2018 og 2019. Heildarlosun frá stóriðju hafi breyst lítið á árunum 2017-2019, en hins vegar sé nokkur mismunur í losun eftir atvinnugreinum sem teljist til stóriðju.

„Losun frá málmframleiðslu, lækkaði um tæp 110 kílótonn CO2 ígilda á milli 2018 og 2019, en þessa lækkun má rekja til minni framleiðslu og bilana í verksmiðjum. Losun CO2 ígilda frá kísilverum jókst hins vegar um nær sama magn á sama tíma,“ segir jafnframt í frétt Hagstofunnar.

Stikkorð: flug flutningar kolefnisspor