Samkvæmt nýju yfirliti Samtaka Afurðastöðva í Mjólkuriðnaði (SAM) var innvigtun mjólkur í júní 10,1 milljón lítrar sem er um hálfri milljón lítrum meira en á sama tíma í fyrra. Þrátt fyrir þessa aukningu er framleiðsla mjólkur á þessu verðlagsári um 2 milljónum lítra minni en á sama tíma í fyrra. Innvigtun mjólkur á þessu verðlagsári var í lok júní 91,2 milljónir lítra, en var á sama tíma fyrir ári 93,3 milljónir lítra.

Munurinn er 2,2% og þrátt fyrir að greiðslumark þessa verðlagsárs sem nú lýkur brátt sé 1 milljón lítrum minna en greiðslumark fyrra verðlagsárs, þá þarf framleiðsla mjólkur að aukast töluvert til að greiðslumarkið nýtist til fulls.

Í byrjun júlí var ónotað greiðslumark 13,8 milljónir lítra (86,9% af greiðslumarkinu framleitt), en 12,7 milljónir lítra á sama tíma fyrir ári (88,1% af greiðslumarkinu framleitt).

Ef framleiðsla mjólkur í júlí og ágúst verður áþekk og í júlí og ágúst í fyrra (16,8 milljónir lítra), má gera ráð fyrir að umframframleiðslan verði um 3 milljónir lítra sem er sama magn og afurðastöðvar hafa gefið út að greitt verði fyrir (próteinhlutann). Þetta kemur fram í frétt á vef Samtaka mjólkurframleiðenda.