Hagnaður bandaríska mótórhjólaframleiðandans Harley-Davidson dróst saman um 19,3% á öðrum ársfjórðungi frá sama tíma fyrir ári. Hagnaður félagsins nam 195,63 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur 23,9 milljörðum króna, í apríl til júni, en fyrir ári nam hann 242,3 milljónum dala.

Sala félagsins nam 1,43 milljörðum dala, sem er samdráttur upp á 6% frá 1,53 milljarða dala sölu á sama tíma fyrir ári. Væntir félagið nú að selja á bilinu 212 til 217 þúsund mótórhjól á árinu en upphaflega höfðu þeir vænst 217 til 222 þúsund hjóla sölu á árinu.

Bæði hefur eftirspurnin eftir hjólunum, sérstaklega stærri gerðum, dregist saman í Bandaríkjunum nú þegar eftirstríðskynslóðin stefnir í eftirlaun en einnig hefur tollastríð stjórnvalda í Bandaríkjunum við Kína aukið kostnað félagsins.