Útlánatap hjá sænska bankanum Nordea jókst um 60% á fjórða ársfjórðungi síðasta árs, m.a. vegna veikleika í danska hagkerfinu, að því er segir í frétt Financial Times. Rekstrarhagnaður bankans er því minni en ella og á að bregðast við því með því að minnka arðgreiðslur til hluthafa.

Nordea er fyrsti stóri evrópski bankinn til að gefa upp afkomutölur fyrir síðasta ársfjórðung og segir í tilkynningu að kreppan á evrusvæðinu hafi haft slæm áhrif á of skuldsett heimili, fyrirtæki í landbúnaði og smærri og meðalstór fyrirtæki. Það hafi svo leitt til aukinna vanskila á útlánum Nordea.