*

laugardagur, 23. október 2021
Erlent 11. janúar 2013 14:48

Minni sala á tölvum yfir hátíðarnar

Sala á Apple tölvum minnkaði en fyrirtækið náði samt að auka við markaðshlutdeild sína.

Ritstjórn
Gunnhildur Lind Photography

Í fyrsta sinn í fimm ár dróst sala á tölvum saman á fjórða ársfjórðungi sem yfirleitt er drifinn að miklu leyti af jólagjafainnkaupum. Þetta sýna nýjustu tölur frá markaðsrannsóknarfyrirtækinu, IDC.

Sé litið á heildina minnkaði sala á tölvum um 4,5% eða úr 18,6 milljónum seldra tölva í 17,75 milljónir. 

Þetta þykja ekki góðar fréttir fyrir Microsoft þar sem túlka á þessar niðurstöður á þann veg að Windows 8 hafi ekki náð að vekja nægilega mikinn áhuga hjá kaupendum. Toshiba hlaut mesta skellinn en salan hjá fyrirtækinu dróst saman um tæplega 34% milli ára.

Hewlett-Packard stóð sig best en salan jókst um 12,4% í 4,8 milljónir seldra tölva. Markaðshlutdeild þess er því nú um 27% á bandaríska markaðnum.

Apple er enn í þriðja sæti þegar það kemur að markaðshlutdeild á bandaríska markaðnum með 11,4%. Salan dróst saman um 0,2% en greinendur telja að þessi samdráttur megi rekja til þess að framboðið af nýju línunni af iMac-borðtölvum hefur verið takmarkað vegna ýmissa örðugleika í framleiðsluferlinu.

Stikkorð: Windows 8 Apple Hewlett-Packard HP Aple Toshiba