Í október var 26% færri kaupsamningum um fasteignir þinglýst á höfuðborgarsvæðinu en í sama mánuði í fyrra, segir greiningardeild Glitnis. Samdrátturinn nemur 17% sé litið til veltu.

?Þó hér sé um talsvert mikinn samdrátt að ræða þá er hann minni en mælst hefur bæði í veltu og fjölda samninga síðustu þrjá mánuði. Í ágúst og september var samdrátturinn 46% í fjölda samninga og 35% í veltu. Staða fasteignamarkaðarins virðist því nokkuð hafa skánað undanfarið.

Endurspeglar þetta þann viðsnúning sem verið hefur í viðhorfi heimilanna til efnahagsástandsins og lýsir sér t.d. í hraðri hækkun væntingavísitölunnar. Til grundvallar liggur m.a. gengisþróun krónunnar, lækkun verðbólgunnar, væntur bati á íbúðalánamarkaði og almennt minni svartsýni þeirra greiningaraðila sem á opinberum vettvangi birta spár um þróun íslenska hagkerfisins,? segir greiningardeildin.