*

föstudagur, 10. júlí 2020
Innlent 15. september 2019 17:46

Minni samdráttur en óttast var

Neysla erlendra ferðamanna gæti aukist um 2% á þessu ári í krónum talið þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir 15% fækkun ferðamanna á árinu.

Ástgeir Ólafsson
Neysla á hvern ferðamann hefur aukist töluvert frá falli WOW air.
Haraldur Guðjónsson

Búast má við því að tekjusamdráttur í ferðaþjónustu vegna fækkunar ferðamanna á þessu ári verði minni en gert var ráð fyrir í upphafi árs og við fall WOW air. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ferðaþjónustuúttekt greiningardeildar Arion banka sem birt var á miðvikudag. Frá falli WOW air í lok marsmánaðar hefur dvalartími erlendra ferðamanna lengst um 17% að meðaltali eða um tæpan sólarhring auk þess sem neysla á hvern ferðamann jókst um 10% í erlendri mynt á öðrum ársfjórðungi og um 24% í krónum talið.

Þrátt fyrir að greiningardeildin geri ráð fyrir um 15% samdrætti í fjölda erlendra ferðamanna í ár er útlit fyrir að tekjur af neyslu þeirra innanlands muni aukast um 2% í krónum talið þó að eðli málsins samkvæmt sé gert ráð fyrir 21% samdrætti í tekjum af farþegaflutningum með flugi.

Ætti að milda höggið 

„Við erum að sjá miklu minni tekjusamdrátt í greininni en við reiknuðum upphaflega með,“ segir Erna Björg Sverrisdóttir, sérfræðingur í greiningardeild Arion banka. „Tekjur af ferðaþjónustunni skiptast annars vegar í farþegaflutninga með flugi og svo hins vegar í neyslu erlendra ferðamanna hér á landi. Í krónum talið erum við að sjá vöxt í heildarneyslu ferðamanna þrátt fyrir að við gerum ráð fyrir að þeim fækki um 15% í ár. Þjóðhagslegu áhrifin af falli WOW air virðast því ætla að verða minni en gert var ráð fyrir í mars sem verður að teljast jákvæð tíðindi fyrir greinina og þjóðarbúið í heild sinni.“

Að sögn Ernu hefur veiking krónunnar haft töluverð áhrif í þessu sambandi en meðalgengi evru var um 11% hærra á fyrstu sjö mánuðum þessa árs í samanburði við sama tímabil í fyrra. „Veiking krónunnar hjálpar þarna til þar sem fyrirtækin eru mörg hver með tekjur í erlendri mynt en með kostnað í krónum

Veiking krónunnar er þó ekki það eina sem hefur lagst á sveif með greininni heldur erum við að fá hingað betur borgandi ferðamenn sem sýnir að þetta er ekki eingöngu spurning um að fá hingað eins marga ferðamenn og við getum heldur frekar að hámarka verðmætasköpun greinarinnar. Þó að staðan sé vissulega mismunandi eftir fyrirtækjum innan ferðaþjónustunnar þá ætti þessi þróun að einhverju leyti milda höggið af fækkun ferðamanna.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Ferðaþjónusta