Nokkur ólga ríkir meðal minni lífeyrissjóða landsins vegna fyrirhugaðra breytinga á álagningu eftirlitsgjalds lífeyrissjóða í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2022. Útfærslan á gjaldinu er með þeim hætti að gjaldtakan verður hlutfallslega mun meiri hjá litlum og meðalstórum sjóðum sem ræðst af fyrirhuguðu föstu gjaldi sem er að lágmarki 4 milljónir króna.

Breytingin felur í sér að eftirlitsgjald sem lífeyrissjóðum ber að greiða til að standa undir kostnaði af eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (FME) verður sundurliðað þannig að 70% af gjaldinu verður fastagjald og 30% ákvarðast í samræmi við hlutfall af eignum. Á síðustu árum hafa fastagjöld numið um 60% af heildarálagningunni á lífeyrissjóðina.

Í umsögn Lífeyrissjóðs bænda (LSB) og sameiginlegri umsögn Festu og SL er bent á að eftirlitsgjöld hjá öllum öðrum eftirlitsskyldum aðilum, þar á meðal hjá viðskiptabönkunum, eru ákvörðuð sem hlutfall af eignum eða rekstrartekjum og því séu lífeyrissjóðir einir um fastagjald.

Bæði Lífeyrissjóður Tannlæknafélags Íslands (LTFÍ) og LSB leggja til að gjaldið verði alfarið innheimt sem hlutfall af hreinni eign sjóðanna en nemi þó að lágmarki 1,2 milljónum króna árlega. „Skorað er á að hið háa Alþingi að breyta umræddu ákvæði í jafnræðisátt svo ekki þurfi að reyna á lögmæti laganna fyrir dómstólum,“ segir í viðbótarumsögn LSB.

Tífalt hærra gjald á sjóðfélaga LTFÍ en hjá LSR

LTFÍ bendir í sinni umsögn á að verði fyrirliggjandi frumvarp að lögum mun eftirlitsgjald sjóðsins hækka um 30% frá fyrra ári og nema um 4,1 milljón króna á næsta ári.

Áætlað eftirlitsgjald hvern sjóðfélaga verði tæplega tífalt hærra hjá LTFÍ, minnsta lífeyrissjóðs landsins, heldur en hjá LSR, stærsta lífeyrissjóðnum. Nánar tiltekið verði það um 1.100 krónur hjá sjóðfélögum LSR samanborið við 11,4 þúsund krónur hjá sjóðfélögum LTFÍ.

„Lífeyrissjóðir eru í eigu sjóðfélaga sinna. Á íslenskum vinnumarkaði hefur stór hópur lítið um það að segja hvert hann greiðir sitt lífeyrisiðgjald. Af þeim sökum er sérstaklega mikilvægt að löggjafinn hugi að jafnræði og réttlátum leikreglum,“ segir í umsögn LTFÍ.

Hagsmunagæsla LL fyrir stærstu lífeyrissjóðina „skín í gegn“

Í umsögn LSB um frumvarpið segir að löggjafinn hafi velt „hundruðum milljóna króna kostnaði vegna eftirlitsgjalds af sjóðfélögum stærstu lífeyrissjóðanna yfir á sjóðfélaga minni og meðalstórra lífeyrissjóða“. Þá segir sjóðurinn að ef horft væri til næstu 20 ára, væri löggjafinn að velta 1,5 milljörðum króna kostnaði af sjóðfélögum stærstu lífeyrissjóðanna yfir á þá sjóðfélaga, sem eiga réttindi í minni og meðalstórum lífeyrissjóðum.

LSB kallar eftir að lögunum um eftirlitsgjaldið verði breytt þannig að það samræmist jafnræðisreglu og öðrum áskilnaði laga og stjórnarskrár um álagningu og jöfnun opinberra gjalda.

Þá beinir LSB sjónum sínum að Landsamtökum lífeyrissjóða (LL) og segir að hagsmunagæsla þeirra fyrir stærstu lífeyrissjóðina „skíni í gegn“ þannig að stærsti hluti eftirlitsgjaldsins lendi á sjóðfélögum minni og meðalstórra lífeyrissjóða.

„Landssamtök lífeyrissjóða (LL) hafa beitt sér fyrir því frá árinu 2006 að grundvöllur eftirlitsgjaldsins væri ekki hlutfall af eignum eins og hann er hjá öllum öðrum eftirlitsskyldum aðilum. Í stað þess hafa samtökin sett fram tillögu og ósk til Alþingis að þáttur fastagjaldanna í heildarálagningu eftirlitsgjaldsins á lífeyrissjóði næmi hverju sinni um 60% af álagningunni á lífeyrissjóði. Hagsmunagæsla Landssamtaka lífeyrissjóða skín í gegn fyrir stærstu lífeyrissjóðina þannig að stærsti hluti eftirlitsgjaldsins lendir á sjóðfélögum minni og meðalstórra lífeyrissjóða,“ segir í umsögninni.

Fari núverandi frumvarp að óbreyttu í gegn muni fjórir stærstu lífeyrissjóðirnir, sem fara með 60% af hreinni eign lífeyrissjóðanna, greiða aðeins 36% af 326 milljóna króna heildareftirlitsgjaldi lífeyrissjóða árið 2022, samkvæmt LSB.

Sameining FME og Seðlabankans ekki leitt til lægra gjalds

Landsamtökin skiluðu einnig inn umsögn um fjárlagafrumvarpið. Þar kom fram að sökum þess hve ólík áhrif breytingin á eftirlitsgjaldinu hefur á einstaka sjóði þá sé örðugt fyrir samtökin að lýsa yfir eindregnum stuðningi eða andstöðu við hana.

Hins vegar viðrar LL þeirri spurningu hvort almennt eigi að vera með sérstakt eftirlitsgjald í kjölfar sameiningu FME og seðlabankans eða í það minnsta hvort ekki náist fram hagræðing í rekstri sem ætti að birtast í umtalsverðri lækkun gjaldsins „en sú hefur enn ekki orðið raunin“.

Endurspegli kostnað sem fellur til hjá hverjum sjóði

LSB segir í umsögn sinni að breytingin byggi á athugun Seðlabankans á því hvernig eftirlit FME með lífeyrissjóðum skiptist og er fastagjaldinu ætlað að standa undir beinu eftirliti með einstökum verkefnum á borð við greiningar á lífeyrismarkaði, stjórnun og reglusetningarvinnu.

„LSR telur mikilvægt að eftirlitsgjaldið endurspegli þann kostnað sem fellur til við eftirlit hjá hverjum sjóði fyrir sig og telur að framkomin breytingatillaga nái því markmiði.“