Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Salescloud hefur sett á markað lausn sem gerir viðskiptavinum kleift að njóta snertilausrar sjálfsafgreiðslu, meðal annars, við pantanir á veitingastöðum. Lausnin sem ber heitið eTags og virkar þannig að eftir að viðskiptavinur sest við borð á veitingastað ber hann símann upp að þar til gerðu eTag merki á borðinu og fær þá matseðilinn í símann. Öll pöntun veitinga fer þvi í gegnum símtæki viðskiptavinar og eins uppgjör reiknings.

„Þetta er frábær lausn að svo mörgu leyti. Frá sjónarmiði viðskiptavinarins má til dæmis nefna að ekki þarf að bíða eftir þjónustu til að panta og eins sparast tíminn sem getur farið í að bíða eftir að fá að greiða fyrir máltíðina. Frá sjónarmiði rekstraraðilans má horfa til þess að álag á starfsfólkið verður minna og eins getur launakostnaður lækkað þar sem færri þjóna þarf á hverja vakt á þeim stöðum sem notast við eTags," segir Helgi Andri Jónsson, framkvæmdastjóri SalesCloud

Með notkun á eTags minnkar einnig öll smithætta þar sem að viðskiptavinir nota eigin símtæki til pöntunar og greiðslu í stað þess að handleika fjölnota prentaða matseðla og posa á veitingastöðunum.

„Alla jafna er þetta mjög sniðug lausn sem við höfum smíðað og það má eiginlega segja að hún sé það sérstaklega núna í ljósi þess heilbrigðisástands sem ríkir í heiminum. Allar leiðir sem takmarka smitleiðir hljóta að vera vel þegnar og eTags er svo sannarlega ein af þeim," segir Helgi.