Tekjuafgangur hins opinbera var jákvæður um 13 milljarða á 3. ársfjórðungi samkvæmt tölum Hagstofunnar og nam afgangurinn 1,1% af vergri landsframleiðslu og 8,7% af tekjum hins opinbera. Þetta kom fram í morgunkorni Glitnis í gær.

Samtals mælist afkoman á fyrstu 9 mánuðum ársins jákvæð um tæpa 42 ma.kr. sem samsvarar um 3,4% af VLF. Nokkuð dregur út tekjuafgangi ef miðað er við fyrra ár, en á 3. ársfjórðungi 2006 nam afgangurinn um 17,3 mö.kr. og á fyrstu 9 mánuðum þess árs um 50,2 mö.kr. eða um 4,3% af VLF.

Tekjuafkoma ríkissjóðs var jákvæð um 11,8 ma.kr. á fjórðungnum og samtals um 38,3 ma.kr. á fyrstu 3 fjórðungum ársins. Tekjuafgangur sveitarfélaganna var einnig jákvæður á 3. ársfjórðungi um 1,2 ma.kr. sem er hagstæðari niðurstaða en á sama tíma í fyrra. Það sem af er ári mælist afgangur sveitarfélaganna jákvæður um 4,1 ma.kr. sem nemur um 3,1% tekna þeirra.

Útgjöld ríkissjóðs aukast

Tekjur ríkissjóðs námu um 110,8 mö.kr. sem er um 6,7% meira en á sama tíma í fyrra. Því útskýra vaxandi útgjöld lakari afkomu ríkissjóðs, en þau jukust um 14,1%. Í áætlun fjármálaráðuneytisins frá í haust var gert ráð fyrir að heildarútgjöld á árinu myndu aukast um 13,4% sem er nálægt útgjaldaaukningunni yfir fyrstu 9 mánuði ársins. Tekjur ríkissjóðs, sem áætlaðar eru út frá þjóðhagsspá ráðuneytisins, hafa aukist meira en búast hefði mátt við, en það er til marks um mikinn gang hagkerfisins, eins og nýbirtar tölur Hagstofunnar um landsframleiðslu eru til marks um, segir í morgunkorni Glitnis.