Tekjur Landspítala af ósjúkratryggðum sjúklingum lækkuðu um nærri tvo þriðju á síðasta ári samanborið við árið 2019. Ógreiddar kröfur ósjúkratryggða drógust einnig saman. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ársreikningi spítalans.

Langstærstur hluti útgjalda spítalans er fjármagnaður með framlagi úr ríkissjóði en það nam 75,5 milljörðum króna í fyrra. Tekjuhalli spítalans án ríkisframlags var aftur á móti 76 milljarðar. Eiginfjárstaðan var neikvæð um 4,8 milljarða í árslok 2020.

Utan ríkisframlagsins hefur spítalinn þjónustutekjur vegna ýmissar starfsemi. Til að mynda nam hlutur sjúklinga í rannsóknarkostnaði rúmlega 1,6 milljörðum í fyrra og dróst saman um liðlega 70 milljónir. Komur á göngu- og bráðadeildir skiluðu spítalanum 855 milljónum samanborið við 926 milljónir árið á undan. Þá greiddu ósjúkratryggðir einstaklingar, sem oftar en ekki eru erlendir ferðamenn, 329 milljónir til spítalans í fyrra en höfðu greitt milljarð árið á undan.

Meðal eigna eru færðar kröfur á erlenda aðila en þær námu í ársbyrjun 221 milljón og lækkuðu um 156 milljónir frá 2019. Ógreiddar kröfur á einstaklinga innanlands námu rúmlega hálfum milljarði.

Sem fyrr segir námu framlög ríkisins til spítalans 75,5 milljörðum króna í fyrra og jukust um rúmlega níu milljarða milli ára. Þá námu þau 52,6 milljörðum króna árið 2016 en umræddar upphæðir eru á verðlagi hvers árs fyrir sig. Langstærsti útgjaldaliður spítalans er launakostnaður en í fyrra námu laun og launatengd gjöld 61,5 milljörðum og hækkaði útgjaldaliðurinn um tæpa fjóra milljarða frá fyrra ári. Tæplega 5.600 manns störfuðu á spítalanum að meðaltali í mánuði hverjum í 4.462 meðalstöðugildum.