SÍ ehf., sem á og rekur skyndibitastaði undir merkjum Serrano á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og Reykjanesi, hagnaðist um ríflega 24 milljónir króna í fyrra en afkoman árið 2019 hafði verið jákvæð um 9,4 milljónir.

Tekjur námu rúmlega 799 milljónum og drógust saman um 77 milljónir milli ára. Kostnaðarverð seldra vara lækkaði að sama skapi en framlegð síðasta árs nam 591 milljón og dróst saman um 47 milljónir.

Í lok ársins voru stöðugildi 41 en þau höfðu verið 47 í upphafi árs. Launakostnaður nam 306 milljónum en hafði verið 344 milljónir árið 2019. Annar rekstrarkostnaður dróst lítillega saman. EBITDA ársins nam 42,8 milljónum og hækkaði um 15 milljónir milli ára.

Í skýrslu stjórnar segir að sóttvarnaaðgerðir hafi haft talsverð áhrif á félagið og að það hafi orðið fyrir nokkurri tekjuskerðingu vegna þeirra. Sökum þess hafi stjórnendur afráðið að nýta hluta þeirra úrráða sem stjórnvöld buðu upp á en umfangs þeirra er ekki getið. Auk þess hafi verið ráðist í aðrar innanhússaðgerðir til að draga úr kostnaði.

Eignir félagsins námu 199,5 milljónum í árslok síðasta árs en nærri helmingur þess er í formi 94 milljón króna láns til tengds félags. Enginn arður var greiddur úr því og hækkar óráðstafað eigið fé sem hagnaði nemur. Eigið fé var alls 87,5 milljónir í árslok og skuldir 112 milljónir sem skiptast nokkuð bróðurlega milli skammtíma- og langtímaskuldbindinga.