Mat bandarískra neytenda á efnahagsmálum þar í landi versnaði í febrúar ef marka má væntingavísitölu Conference Board sem lækkaði um 1,1 stig á milli mánaða og stendur nú í 104 stigum. Tiltrú neytenda á núverandi efnahagsástandi þar í landi batnaði að vísu en á móti kom að það dró úr væntingum þeirra til efnahagsástandsins hálft ár fram í tímann. Einkaneysla er í miklum vexti í Bandaríkjunum um þessar mundir og hefur ekki vaxið hraðar í fjögur ár eins og bent er á í Morgunkorni Íslandsbanka.

Atvinnuleysi hefur minnkað að undanförnu og er nú 5,2% af mannafla. Almennt er því spáð að efnahagsástandið batni frekar á þessu ári. Samkvæmt könnun á vegum Bloomberg er reiknað með 3,6% hagvexti í Bandaríkjunum á þessu ári.