Íbúðalánasjóður áætlar að umsvif sjóðsins á árinu 2008 verði nokkru minni en á árinu sem er að líða. Samkvæmt nýbirtri áætlun sjóðsins fyrir árið 2008 áætlar sjóðurinn að lána 57-65 ma.kr. til húsnæðiskaupa. Þetta kemur fram í morgunkorni Glitnis.

Í lok nóvember hafði sjóðurinn lánað tæplega 63 ma.kr. og samkvæmt áætlun má reikna með allt að 6 ma.kr. útlánum í desember. Í heild má því búast við að útlán sjóðsins á yfirstandandi ári verði hátt í 69 ma.kr.

Greiningadeild Glitnis segir að reikna megi með því að töluvert hægi á fasteignamarkaði í desember vegna hátíðahalda en á móti vegur að hugsanlegt er að lán vegna leiguíbúða verði mikil í mánuðinum.

„Samkvæmt áætluninni  mun sjóðurinn gefa út íbúðabréf að andvirði 49-57 ma.kr. á árinu 2008 en á yfirstandandi ári hefur sjóðurinn gefið út íbúðabréf fyrir nálægt 55 ma.kr. Sá samdráttur milli ára sem sjóðurinn áætlar hér er í samræmi við spá okkar um að nokkuð hægi á markaðinum á næsta ári vegna erfiðara aðgengi að lánsfé og hærri vaxta. Við eigum þó von á að nokkur gangur verði áfram á fasteignamarkaði og að mikil kaupmáttaraukning undanfarið og hátt atvinnustig muni styðja við markaðinn á árinu,“ segir í morgunkorni Glitnis.