Samkvæmt skýrslu Húsnæðis og mannvirkjastofnunar um stöðuna á leigumarkaði hefur leigumarkaðurinn ekki farið varhluta af þeim miklu umsvifum sem verið hafa á fasteignamarkaði undanfarið eitt og hálft ár. Hlutfall leigjenda hefur lækkað um 5% undanfarin ár, úr um það bil 18% árið 2019, en hefur haldist stöðugt í kringum 13% frá vorinu 2020.

Hlutfall fyrstu kaupenda hefur aldrei verið jafn hátt en það er hins vegar ekki eina ástæðan fyrir minni umsvifum á leigumarkaði þar sem hlutfall þeirra sem búa í foreldrahúsum hækkaði um 2%, úr 9% árið 2019 í 11% árið 2020 og hefur haldist svipað síðan.

Í heimsfaraldrinum hefur fólki í aldurshópnum 18-24 ára sem býr í foreldrahúsum fjölgað um 16% en fjölda fólks í sama aldurshópi sem býr í eigin húsnæði hefur fækkað. Fólki sem býr í eigin húsnæði hefur fjölgað í öllum öðrum aldurshópum, þá sérstaklega í aldursflokknum 25-34 ára en þar er hækkunin heil 8%.