*

sunnudagur, 12. júlí 2020
Innlent 3. mars 2019 13:09

Minni útflutningur dragi niður hagvöxt

Ferðaþjónusta og loðna eru meðal stærstu áhrifaþátta í þriðjungslækkun hagvaxtarspár Hagstofunnar frá því í haust.

Júlíus Þór Halldórsson
Reiknað er með samdrætti í ferðaþjónustu á árinu í Þjóðahgsspá Hagstofunnar.
Haraldur Guðjónsson

Eins og fjallað hefur verið um lækkaði uppfærð Þjóðhagsspá Hagstofunnar í febrúar hagvaxtarhorfur ársins úr 2,5% í 1,7%.

Ýmsir þættir hafa þar áhrif, en veigamesta breytingin frá haustspánni er þróunin í ferðaþjónustu. Almenn óvissa, og erfiðleikar og endurskipulagning Wow air sérstaklega, eru nefnd í þessu samhengi, en reiknað er með samdrætti greinarinnar á árinu.

Þá er óvissa um loðnukvóta nefnd sérstaklega, en þrátt fyrir mikla leit hefur engin loðna fundist ennþá, og vaxandi svartsýni ríkir um hvort nokkur loðnukvóti verði gefinn út. Yrði það í fyrsta skipti í yfir hálfa öld sem engin loðna er veidd, en útflutningsverðmæti loðnu nam 17,8 milljörðum króna í fyrra, sem er um 1,3% heildarútflutnings ársins, og rúmur fimmtungur vöru- og þjónustuafgangs.

Til lengri tíma litið er spáin þó öllu jákvæðari, þar sem viðbúið er að veiking krónunnar ýti undir útflutning á öðrum sviðum þegar fram líða stundir. Þannig er reiknað með að eftir aðeins 1,6% vöxt útflutnings í ár hækki hann í 2,4% á næsta ári og 2,7% árið eftir það.

Áframhaldandi vöxtur innlendrar eftirspurnar gerir það að verkum að búist er við 4,2% vexti innflutnings í ár, en að svo hægi á honum í 3,2% á næsta ári, og eftir það verði hann á bilinu 2-3%. Þrátt fyrir hraðari vöxt innflutnings en útflutnings er gert ráð fyrir áframhaldandi afgangi af bæði vöru- og þjónustuviðskiptum og viðskiptum í heild við útlönd út spátímabilið.

Hagfelld þróun hrávöruverðs
Þróun hrávöruverðs hefur hinsvegar verið heldur jákvæð fyrir íslenskan efnahag síðan í haust, sem vegur örlítið upp á móti og er kærkomin kjarabót á tímum hratt kólnandi hagkerfis.

Olíuverð er einn mikilvægasti ytri þátturinn fyrir íslenskt hagkerfi. Eftir miklar hækkanir þess á árinu 2018 féll heimsmarkaðsverð á olíu mjög skarpt undir lok árs, og hefur haldist tiltölulega stöðugt síðan, þrátt fyrir yfirlýstar fyrirætlanir OPEC um að draga úr framleiðslu.

Ef horft er til framvirks verðs lítur út fyrir að markaðsaðilar búist við því að það haldist stöðugt næstu árin, og Þjóðhagsspá gerir ráð fyrir að úr því rætist.

Þá er áætlað er að verð útfluttra álafurða hafi hækkað um 13% í dollurum talið á síðasta ári, sem er talsvert meiri hækkun en haustspáin gerði ráð fyrir, og sökum veikingar krónunnar er hækkunin enn meiri í krónum talið.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.