Velta í dagvöruverslun minnkaði um 5,8% í febrúar síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra, á föstu verðlagi, en var 2,1% meiri ef miðað er við breytilegt verðlag. Febrúar var síðasti mánuðurinn fyrir lækkun virðisaukaskatts og afnáms vörugjalda á matvæli og má ætla að neytendur hafi að einhverju leyti beðið með innkaup fram yfir mánaðarmót eftir að verð lækkaði segir í frétt frá Rannsóknasetri verslunarinnar á Bifröst.

Sala áfengis jókst hins vegar um 6,3% milli febrúarmánaða 2006 og 2007 á föstu verðlagi og 11,5% á breytilegu verðlagi.

Vísitala fata- og skóverslunar er nú birt í fyrsta sinn. Enn sem komið er birtist aðeins samanburður milli janúar og febrúar (janúar = 100). Velta í fataverslun var 24,3% minni í febrúar en í janúar og 22,3% minni í skóverslun, á föstu verðlagi. Þetta þarf ekki að koma á óvart því janúar er einn aðal útsölumánuður ársins á þessum vörum og þess vegna mun meiri velta í janúar en febrúar, auk þess sem verslunardagarnir eru fleiri í janúar segir í fréttinni.