Verðbólga á evrusvæðinu mældist 2,4% í júní og minnkaði frá því í maí, en þá mældist verðbólga 2,5%. Niðurstaðan var í samræmi við spár skv. könnun á vegum Bloomberg. Vísitala neysluverðs fyrir evrusvæðið í heild sinni stóð í stað á milli maí og júní, en lækkandi orkuverð ásamt verðlækkun á fatnaði vann á móti almennum hækkunum. Í Morgunkornum Íslandsbanka kemur fram að minni verðbólga dregur úr líkum á vaxtahækkun af hálfu Evrópska Seðlabankans. Verðbólgumarkmið bankans er 2,0% og stýrivextir bankans hafa verið í sögulegu lágmarki (2%) undanfarna þrettán mánuði. Ólíklegt er talið að bankinn muni hækka vexti sína í bráð. Hagvöxtur á evrusvæðinu var 1,3% á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við 4,8% í Bandaríkjunum og 5,6% í Japan.