Verðbólga á Íslandi mælist 1,1% samanborið við 2,1% verðbólgu að meðaltali á Evrópska efnahagssvæðinu, segir greiningardeild Íslandsbanka. Þetta kemur fram í mælingum á samræmdri vísitölu neysluverðs.

Minnsta verðbólgan á Evrópska efnahagssvæðinu var 0,8% í Póllandi en mesta verðbólgan er í Lettlandi, eða 7,1%.

Verðbólgan á Íslandi reyndist 4,1% í desember samtkvæmt vísitölunni sem almennt er notast við, hér á landi. Mestu munar um að íbúðarverð er ekki meðtalið í samræmdu vísitölunni.

Mikil vaxtahækkun bankans hefur haldið aftur af innflutningsverðlagi í gegnum hátt gengi krónunnar og bankinn hefur þannig að öllum líkindum komið í veg fyrir frekari verðbólgu en komið hefur.