„Það að sárafáum kaupsamningum um íbúðarhúsnæði frá apríl hefur verið þinglýst skapa óvenjulegar aðstæður fyrir okkur,“ segir Finnbogi Gunnarsson, sérfræðingur á vísitöludeild Hagstofu Íslands, í samtali við Morgunblaðið , en þar er greint frá því að verðbólga í maí gæti mælst minni en ella þar sem væntanlegra verðbólguáhrifa hækkandi íbúðaverðs mun ekki gæta að fullu.

Húsnæðisliðurinn í vísitölunni hefur að miklu leyti skýrt hækkun hennar að undanförnu og hefði verið verðhjöðnun suma mánuði án hans. Finnbogi segir að aðferðafræðin sem notuð sé við útreikning á húsnæðislið vísitölunna byggist á þriggja mánaða meðalverði þinglýstra kaupsamninga um íbúðarhúsnæði.

„Það þýðir að við munum taka inn þessa fáu samninga sem til eru fyrir apríl en þeir munu vega mjög lítið í þriggja mánaða meðalverðinu fyrir tímabilið frá febrúar til apríl þegar það verður borið saman við meðalverð í janúar, febrúar og mars til þess að reikna verðbreytingu. Í hvert sinn sem við tökum inn gögn er það fyrir þrjá mánuði sem þýðir að leysist úr verkfallsdeilunni nú í maí og byrjað verði að skrá samninga frá apríl munu þeir bætast við í útreikning vísitölunnar í júní og júlí,“ segir Finnbogi.