*

sunnudagur, 25. október 2020
Innlent 4. september 2020 12:56

Minni verðmæti í vöruútflutningi

Vöruviðskipti voru óhagstæð um 11,2 milljarða í ágústmánuði en innflutningurinn dróst meira saman en útflutningurinn frá 2019.

Ritstjórn
Svokallaðir álboltar tilbúnir til útflutnings, en ein skýringin á minnkandi útflutningi er samdráttur í iðnaðarvörum, en á sama tíma jókst útflutningur á sjávarafurðum.
Aðsend mynd

Vöruviðskipti Íslands við útlönd voru óhagstæð um 11,2 milljarða í ágústmánuði, en innflutningurinn dróst meira saman en útflutningurinn milli ára, eða um 4,8% miðað við 3,9%, á gengi hvors árs.

Á sama tíma fyrir ári voru vöruviðskiptin óhagstæð um 12,2 milljarða króna að því er Hagstofan segir frá, en stofnunin hefur tekið saman bráðabirgðatölur fyrir ágúst í ár.

Samkvæmt þeim nam verðmæti vöruútflutningsins 44,1 milljarði króna í ágúst 2020, sem var 1,8 milljörðum króna minni verðmæti en á sama tíma árið 2019. Útflutningur á iðnaðarvörum dróst saman en á móti kom aukning í útflutningi á sjávarafurðum.

Verðmæti vöruinnflutningsins nam 55,3 milljörðum króna í ágúst í ár, sem er 2,8 milljörðum króna minni útflutningur en í ágúst 2029. Lækkunina má aðallega rekja til minni innflutnings á eldsneyti.