Nýverið hefur verið allmikil umræða um hvort að hægja hefur tekið á fasteignamarkaði, en áður hafði umræðan nánast einungis snúist um miklar hækkanir á fasteignamarkaði og umfang viðskipta. Í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans er bent á að sé litið á þróun fjölda viðskipta síðustu mánuði, og þá sér í lagi þegar litið er til fjölbýlis, má sjá að hún hafi verið heldur niður á við.

Í samanburði mars- og aprílmánaða skiptir máli hvar páskarnir liggja. Þeir voru í apríl í ár og því voru tölurnar lægri þá. Þrátt fyrir að tölurnar hafi hækkað nokkuð í apríl, þá hefur hægt talsvert á veltunni frá því í nóvember.

Til lengri tíma litið

Ef litið er til lengri tíma eða allt frá árinu 2009 til 2016 er hægt að sjá að það var samfelld aukning viðskipta á fasteignamarkaði höfuðborgarsvæðisins á því tímabili. Meðalfjöldi viðskipta fyrstu fimm mánuði þessa árs er hins vegar töluvert minni en meðaltal síðasta árs og endurspeglar sú þróun þann framboðsskort sem ríkt hefur á markaðnum upp á síðkastið.

Meðalupphæðir kaupsamninga sem birtar eru vikulega, segja sína sögu en ber að túlka stærðirnar, meðalverð eigna og mælingu á verðþróun með ákveðinni varfærni. Sé þróun meðalverðanna skoðuð með fyrirvörum sést að þróunin er keimlík vísitölu íbúðarverðs, með einni verulegri undantekningu. „Samanburður á meðalverði sérbýlis fyrstu 5 mánuði ársins og meðalverði síðasta árs sýnir yfir 23% hækkun. Samskonar mæling á fjölbýli gefur rúmlega 12% hækkun,“ segir í greiningunni. Því rímar hækkunin á fjölbýli nokkuð vel við vísitölu íbúðaverðs en hækkunin á sérbýli alls ekki.

Að lokum kemur fram í greiningu Landsbankans að stóran myndin er sú að fasteignamarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sé að dragast nokkuð saman að undanförnu. Hvort að það hafi síðan áhrif á verðþróun verður að fá að koma í ljós.