Vöruskiptahalli í október var 6,6 milljarðar króna, sem er 2,3 milljörðum minni halli en í sama mánuði í fyrra, að því er fram kemur í tölum Hagstofunnar. Vöruskiptahallinn á fyrstu tíu mánuðum ársins nam 81,6 milljörðum króna, sem er 38,3 milljörðum króna minni halli en á sama tímabili í fyrra. Innflutningur stóð nánast í stað en útflutningur jókst um fimmtung.

Í Vegvísi Landsbankans segir að hafa beri í huga að út- og innflutningur á flugvélum og skipum gegni veigamiklu hlutverki í mælingunum nú. Átján milljarðar af bata vöruskiptahallans eru raktir til breytinga í inn- og útflutningi flugvéla. Hlutur sjávarafurða í útflutningi landsins dróst saman úr 52% í 44% á fyrstu tíu mánuðum ársins, sem skýrist að töluverðu leyti af stórauknum útflutningi á stóriðjuafurðum, að því er fram kemur í Vegvísi.