Velta í allri virðiskaukaskattskyldri starfsemi nam 757 milljörðum króna í maí og júní á þessu ári, sem er hækkun um 0,4% frá sama tímabili árið 2016, að því er Hagstofan greinir frá.

Ef horft er til veltunnar utan ferðaskrifstofa og farþegaflutninga á vegum, sem ekki varð virðisaukaskattskyld fyrr en í ársbyrjun 2016, þá nam hún 734 milljörðum króna á þessu sama tímabili, en hækkunin þar milli ára er jafnframt 0,4%.

Veltubreytingin frá júlí 2016 til júní 2017 miðað við síðustu 12 mánuði þar á undan er þá sem hér segir eftir flokkum:

  • 26,7% aukning í bílaleigu
  • 22,0% aukning í rekstri gististaða og veitingarekstur
  • 27,0% aukning í byggingarstarfsemi, mannvirkjagerð, námugreftri og vinnslu jarðefna
  • 16,5% minnkun í sjávarútvegi
  • 17,2% minnkun í heildverslun með fisk

Eins og gefur að skilja þá tengist stór hluti aukningarinnar að nú eru þessar greinar orðnar að fullu virðisaukaskattskyldar. Ef hins vegar er einungis horft til aukningarinnar frá maí til júní 2016 til sama tímabils í ár þá er aukningin í byggingarstarfsemi og tengdum flokkum einungis 10,2% sem bendir til þess að verulega hafi dregið úr vexti.

Sama á við um aukninguna í bílaleigu, en á þessu tímabili nemur hún 19,2% en enn meira áberandi er að sjá að hægir á þegar skoðaður er rekstur gististaða og veitingarekstur en þar hefur veltan einungis aukist um 7,3% ef horft er til þessara stóru sumarmánuða.