Alþingi kemur saman í þessum mánuði til að ljúka umræðu um þriðja orkupakkann áður en nýtt þing verður sett í september. Á borði Sigurðar Inga Jóhannssonar eru stór mál á borð við gjörbyltingu á leigubifreiðamarkaði, breytingar á loftferðalögum og stefnu í netöryggismálum. Þá er fjármögnun fimm nýrra samgöngumannvirkja með veggjöldum, að hluta til hið minnsta, óupptalin.

„Síðasta þing gekk að mörgu leyti ágætlega fyrir utan tvær þrjár vikur. Það hefur aldrei gerst áður að þingflokkur, með telur einn þingmann af hverjum sjö, taki þingið í gíslingu. Slíkt hrópar á breytingar á þingsköpum,“ segir Sigurður Ingi. Hann viðurkennir að hann hafi sjálfur tekið þátt í slíku málþófi, þegar deilt var um Icesave, en þá hafi rúm fjörutíu prósent þingmanna krafist breytinga á málinu. Það að lítill minnihluti eyðileggi störf allra hinna gangi ekki.

Það sé þó aðkallandi að hafa betri yfirsýn um væntanlegar breytingar á gerðum og tilskipunum frá Evrópu. Áður en breytingar eru innleiddar gefst ríkjum færi á að koma að athugasemdum og beiðnum um undanþágur áður en gerðirnar verða endanlegar. Pappírsbunkarnir séu hins vegar oft svo stórir að reglulega lendi mál milli skips og bryggju.

„Við þurfum í auknum mæli að einblína á hagsmuni Íslands. Ef við tökum Liechtenstein sem dæmi þá einblínir ríkið á reglur er varða fjármálamarkað og láta annað eiga sig. Sökum smæðar sinnar hafa þau ekki burði í meira. Hið sama gildir um Ísland. Við höfum þegar fjölgað slíkum stöðum innan ráðuneyta en það er spurning hvort meira þurfi til,“ segir ráðherrann.

Að mati formannsins er tilefni til að kanna hvort rétt sé að úthýsa einhverjum slíkum verkefnum til lögmanna sem hafa hreina fagþekkingu á viðkomandi sviði. „Þeir yrðu eins og hermenn að berjast fyrir hagsmunum Íslands áður en embættismaður eða pólitíkus kemur að því. Ef slíkt starf er nægilega öflugt, og fyrirvarar gerðir á meðan hægt er, held ég að við munum áfram njóta góðs af EES-samstarfinu og lenda sjaldnar í undarlegri umræðu eins og nú.“

Óvíst hvort kosið verður að vori

Í könnunum á fylgi flokka landsins undanfarið hefur fylgi Framsóknarflokksins mælst í kringum tíu prósent, stundum örlítið meira en stundum minna. Formaður flokksins hefur ekki sérstakar áhyggjur af fylgi hans.

„Meðan þingmenn og ráðherrar eru vinna af heilindum góða vinnu, sem ég tel að við séum að gera, þá hef ég ekki áhyggjur þó það pirri stjórnmálamenn auðvitað að fá ekki meiri stuðning. Við erum í umhverfi þar sem öfgasjónarmið heyrast hæst. Framsóknarflokkurinn er á móti hófsamur, leysir vandamál með samvinnu en fer ekki út og æpir að einhver mál séu þvæla og menn vitleysingar,“ segir Sigurður Ingi.

„Vandi okkar felst í því að þeir sem æpa hæst og nota ljótustu orðin fá mesta umfjöllun. Við erum með samviskusama vinnuhesta í þingflokknum sem skila frábærri vinnu. Það þýðir að lögin og umhverfið á Íslandi eru betri en fáir vita af þeirra störfum. Okkar áskorun felst í að segja betur og skýrar frá því sem við erum að gera.“

Kosið var til núverandi þings í október 2017 og verður því kosið aftur árið 2021. Ekki er hins vegar ljóst hvort kosið verður að vori eða sumri. „Það verður ákveðið í mars það ár og eftir því hvernig flokkunum þremur líður í ríkisstjórn. Við þurfum að vega og meta hvort rétt sé að kjósa á ný að vori eða áfram að hausti,“ segir ráðherrann.

Sigurður Ingi kom inn á þing árið 2009 og hefur því setið þar í rúman áratug. Óráðið er hvort hann stefni á áframhaldandi þátttöku í stjórnmálum. „Meðan þú ert duglegur, samviskusamur, hefur ánægju af hlutunum og fólk styður þig þá er ekkert að því að vera lengi í pólitík. Mér líður þannig núna.  Það er ekkert fararsnið á mér,“ segir Sigurður Ingi að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .