Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir skrifaði nú undir kvöld minningarorð um Guðbjart Hannesson fyrrvarandi ráðherra og alþingismann Samfylkingarinnar, sem lést í dag, og birti þau á Facebook.

Bryndís starfaði sem kosningastjóri Guðbjarts í formannsframboði hans á landsflundi Samfylkingarinnar í febrúar 2013.

Með þessum fallegu minningarorðum vottar Bryndís aðstandendum samúð sína.

Nú er elsku Gutti búinn að kveðja okkur, mig skortir orð til að lýsa því hversu sárt er að sjá eftir þessum góða manni. Ég kynntist Gutta vel þegar ég var kosningastjórinn hans í formannskosningum og komst fljótt að þeirri niðurstöðu að hann væri flóknasti frambjóðandi sem ég hef unnið fyrir, en jafnframt sá frambjóðandi ég hef kynnst sem hafði brýnasta og augljósasta erindið í stjórnmálum.

Hann var aldrei erfiður við neinn persónulega, en honum þótti algjörlega fráleitt að hringja í fólk og biðja það hreint út að kjósa sig, hvað þá að gaspra um eigin afrek, það var sama hvað ég reyndi að tala hann til. Hann var alveg til í að heyra í fólki og segja þeim að hann væri tiltækur ef fólki fyndist hann verðugur, þá gæti það kosið hann. Þegar hann svo hóf að hringja í kjósendur enduðu flest þessara samtala á því að fólk var farið að trúa honum fyrir sínum innstu raunum og Gutti hlustaði og gaf góð ráð, lítið var rætt um framboðið hans. Svo var hann alltaf voða glaður að hafa getað aðstoðað fólk þegar hann hafði lagt á og ég var byrjuð að skamma hann fyrir að hafa gleymt að tala um framboðið.

Þetta var auðvitað ekki beinlínis það sem ég sá fyrir mér að hann gerði í baráttunni, en svona var Gutti, alltaf boðinn og búinn að vera til staðar fyrir aðra og hóværari en nokkur sem ég hef kynnst í hans stöðu. Hann hafði gífurlega sterka réttlætiskennd og gaf sig allan í að leiða til lykta mikilvæg réttlætismál fyrir samfélagið. Mér var ljóst allan tímann að ef fleiri stjórnmálamenn væru eins og Gutti, yrði samfélagið miklu réttlátara og betra.

Einu sinni í miðri kosningabaráttunni eftir mjög annansaman dag, þar sem Gutti gersamlega að drukkna í málum sem þurfti að leysi í ráðuneytinu, hjúkrunafræðingar boðuðu verkfall, fjölmiðlar að hringja á fullu og allt á haus, auk þess sem ég var að senda hann í hin og þessi viðtöl út af framboðinu. Um kvöldið hringdi hann í mig og var gersamlega miður sín. Það var ekki vegna málanna sem höfðu dunið á honum allan daginn, heldur hafði farið framhjá honum að ég ætti afmæli og hann hefði ekki óskað mér til hamingju, ekki sungið né gefið mér köku!

Svona var Gutti, hlýr og góður, ég mun sakna hans mikið.