Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Íslandsbanka frá síðustu viku er reiknað með að landsframleiðsla verði því sem næst óbreytt á þessu ári. Hagvöxtur verði 1,3% á komandi ári og 2,8% árið 2021.

Íslandsbanki birti í dag grein á vef bankans þar sem tekin eru saman nokkur atriði sem gætu gert þjóhagsspá að engu.

Fyrst er eftirspurnarkreppa nefnd til sögunnar. „Íslensk heimili og fyrirtæki hafa almennt gengið fremur hægt um gleðinnar dyr á uppgangstíma síðustu ára, sem birtist ekki síst í því að skuldir þessara aðila lækkuðu umtalsvert framan af áratugnum en hafa í kjölfarið vaxið nokkurn veginn í takti við vöxt hagkerfisins. Þessi varkárni heimila og fyrirtækja undanfarið er afar dýrmætt veganesti inn í þá óvissutíma sem nú eru framundan í hagkerfinu,“ segir í umfjölluninni, en of mikið af því góða gæti reynst hagkerfinu varhugavert.

„Allt er þó best í hófi. Við höfum efni á að herða beltið bara hóflega! Reynsla annarra landa sýnir að svartsýni og ótti við óvissu og harðindatíma getur stundum orðið sjálfstæður samdráttarvaldur. Þannig gæti  skapast eftirspurnarkreppa þar sem óhóflegur sparnaður og ótti við heilbrigða fjárfestingu kallar fram aukið atvinnuleysi og stöðnun.“

Válynd veður í alþjóðlega hagkerfinu gætu sömuleiðis haft afdrifaríkar afleiðingar. „Þá eru enn blikur á lofti erlendis og þær blikur fara vaxandi fremur en hitt. OECD gaf nýlega út uppfærða hagspá fyrir alþjóðahagkerfið. Þar er spáð 3,0% hagvexti á heimsvísu í ár og 2,9% hagvexti á næsta ári. Ef rétt reynist verður það minnsti hagvöxtur meðal landa heims frá alþjóðlegu fjármálakreppunni í lok síðasta áratugar. Telur stofnunin þar að auki að óvissa í átt til enn verri útkomu fari vaxandi. Harðandi viðskiptastríð og hækkandi tollamúrar eru þar ekki síst áhyggjuefni og hart Brexit vofir enn yfir alþjóðahagkerfinu. Lítið opið hagkerfið á borð við hið íslenska verður óhjákvæmilega fyrir áhrifum af ágjöf erlendis, sér í lagi ef hún reynist í stærra lagi.“

Þjóðhagsspá Íslandsbanka reiknar með að ferðaþjónustan muni ná sér fljótt á strik aftur eftir áföllin sem dundu á greininni í vetur. Spáin er hins vegar gerð í skugga umtalsverðri óvissu.

„Hversu langvinnur verður skellurinn vegna kyrrsetningar MAX-véla? Verður eitthvað úr hinum óskilgetnu afkvæmum WOW air sem verið hafa í burðarliðnum undanfarna mánuði og þá hvenær og með hvaða umsvifum? Flugrekstrargeirinn hefur auk heldur tekist á við töluverðan mótvind á alþjóðavísu undanfarið og gæti það sem best haft áhrif á framboð Íslandsferða eða leitt til hærri flugfargjalda þegar fram í sækir. Ekki er heldur útilokað að aukin umræða um kolefnisfótspor millilandaflugs gæti haft einhver áhrif á komandi tíð,“

Þá sé ekki útséð með hvernig þróun markaða með fasteignir komi til með að vera. „Verð á markaðnum hefur upp á síðkastið haldist í hendur við hækkun almenns verðlags eftir tímabil hraðrar hækkunar fyrir 2-3 árum síðan. Á sama tíma er framboð nýrra íbúða að aukast jafnt og þétt. Verður framboðið ef til vill „of mikið of seint“, sem leitt gæti til verðlækkunar á þeim markaði?“

Loks varar Greining Íslandsbanka við því sem kalla mætti rörsýn í peningamálum, þar sem sjónarmið hagsveiflujöfnunar annars vegar og þjóðhagsvarúðar hins vegar gætu rekist á.

„,“Tekið er að draga talsvert úr hreinum nýjum lánveitingum til fyrirtækja. Má sem dæmi nefna að hreinar nýjar lánveitingar banka til atvinnufyrirtækja voru alls tæplega 119 ma.kr. á tímabilinu september 2018-ágúst 2019, en það er aðeins um helmingur slíkra lánveitinga á sama tímabili ári fyrr.

Þótt hluti skýringarinnar sé eflaust aukin varfærni bæði lánveitenda og lántaka eftir því sem ský hefur dregið fyrir sólu í efnahagshorfunum eru einnig skýrar vísbendingar um það að miklar eigin- og lausafjárfjárkröfur, há skattheimta og íþyngjandi regluverk sé farið að hamla umtalsvert útlánagetu íslenskra banka og dragi auk þess úr svigrúmi þeirra til að miðla lægri vöxtum að fullu til sinna viðskiptavina. Það er ekki nóg að lækka stýrivexti ef umgjörð fjármálakerfisins að öðru leyti er á bremsufætinum.“