Stjórn Reita hefur ákveðið að minnka fyrirhugað hlutafjárútboð félagsins úr 200 milljónum hluta í 120 milljónir hluta. Miðað við núverandi markaðsvirði hluta félagsins stóð til að sækja 9,4 milljarða króna en nú má áætla að félagið sæki um 5,6 milljarða króna í hlutafjárútboðinu.

Í greinargerð stjórnar Retia með tillögunni segir að ákvörðunin hafi verið tekin eftir samtöl við hluthafa félagsins sem hafi viljað fara hægar í sakirnar. Þá séu vísbendingar um betri stöðu í efnahagsmálum en búist var við, til að mynda eftir farsæla niðurstöðu í útboði Icelandair.

Stefna félagsins er að halda 60-65% skuldsetningarhlutfalli og vildu stjórnendur félagsins halda því við lægri mörk þess vegna óvissu tengda faraldrinum. Hlutfallið er nú 62% Með hlutafjáraukningu er einnig miðað að því að tryggja hagkvæmari lánsfjármögnun á markaði.

Nokkrar ástæður eru nefndar fyrir hlutafjáraukningunni. Ein þeirra er að Reitir greiddu út ríflega milljarð króna í arð fyrr í þessum mánuði. Félagið taldi sig ekki hafa lagalega heimild til að hætta við arðgreiðsluna en hún var samþykkt á aðalfundi áður en áhrif COVID-19 faraldursins urðu fyllilega ljós.

Þá hefur heimsfaraldurinn haft mikil áhrif á marga leigutaka Reita. Félagið áætlar að verða af allt að tveimur milljörðum króna í leigutekjur vegna faraldursins frá apríl síðastliðnum og fram á mitt ár 2022.

Auk þess vill félagið geta nýtt tækifæri sem kunna að myndast á markaðnum með kaupum á fasteignum á hagstæðum kjörum. Í greinargerð stjórnar kom fram að hluthafar félagsins hafi fremur viljað far hægar í hlutafjáraukningu nú og tengja frekari aukningu hlutafjár við fjárfestingar í framtíðinni.