Einkaneysla í Bandaríkjunum jókst um 0,2% í apríl eins og spáð hafði verið að hún myndi gera. Menn hafa fylgst grannt með kauphegðun bandarískra neytenda undanfarið þar sem hún þykir gefa vísbendingar um hvernig neytendum vegnar í þeirri kólnun sem nú á sér stað í hagkerfinu þar í landi. Þetta er annar mánuðurinn í röð sem einkaneysla eykst, en hún jókst um 0,4% í mars.

Eftir að verðbólga var tekin með í reikninginn stóðu tekjur bandarískrar verslunar hins vegar í stað í apríl. „Tekjurnar aukast ekki eins mikið og áður af ýmsum ástæðum,“ hefur Reuters eftir viðmælanda sínum. „Hækkandi orkuverð og meiri tilhneyging fólks til að spara, auk þess sem vinnumarkaðurinn hefur veikst.“