IATA, Alþjóðasamband flugfélaga, hefur lækkað hagnaðarspá núverandi árs fyrir alþjóðlega flugiðnaðinn um 12%. IATA reikna nú með því að heildarhagnaður flugiðnaðarins verði 33,8 milljarðar dollara en fyrri spár höfðu gert ráð fyrir 38,4 milljarða dollara heildarhagnaði. Iðnaðurinn hagnaðist um 38 milljarða dollara á síðasta ári. Sagt er frá þessu á vef CNN .

Ástæða þess að IATA lækkaði spá sína er aukinn kostnaður og þar vegur hækkandi eldsneytisverð þungt. Aukinn kostnaður vegna vinnuafls hefur einnig talsverð áhrif. IATA áætlar að eldsneytisverð muni hækka um 25%.

IATA gerir einnig ráð fyrir því að farþegafjöldi flugiðnaðarins muni aukast um 7%. Auk þess mun Norður Ameríka áfram vera það svæði sem skilar mestum tekjum, Evrópa kemur næst í röðinni og svo Asía.