Bandaríska hagkerfið óx töluvert hægar en væntingar voru um á öðrum ársfjórðungi og reiknuð verg landsframleiðsla fyrir fyrstu þrjá mánuðina var færð niður.

Langt undir væntingum

Stærsta hagkerfi heims óx um 1,2% á ársgrundvelli á öðrum ársfjórðungi ársins, sem er langt undir þeim 2,6% sem spáð hafði verið.

Hagvöxturinn fyrir fyrsta ársfjórðunginn var jafnframt endurskoðaður og færður úr 1,1% niður í 0,8%.

Einkaneysla eykst

Hins vegar jókst einkaneyslan töluvert, eða um 4,2% á ársgrundvelli, sem er mesta hækkun hennar síðan á fjórða ársfjórðungi ársins 2014.

Vísbendingar bárust frá Seðlabanka Bandaríkjanna á miðvikudag að enn stefndi í að stýrivextir yrðu hækkaðir á árinu, í kjölfar þess að atvinnuleysistölur reyndust ásættanlegar.

Fjárfestingar einkafyrirtækja drógust saman

Þrátt fyrir að einkaneyslan hafi aukist, dróst hins vegar úr fjárfestingum fyrirtækja um 2,2% á ársfjórðungnum.

Viðskiptahalli landsins hefur jafnframt aukist í 63,3 milljarða Bandaríkjadala úr 61,1 milljarði mánuðinn á undan.