Sony Ericsson tilkynnti í dag að hagnaður fyrirtækisins á fyrsta ársfjórðungi 2008 yrði meira en helmingi minni en á sama tíma í fyrra.

Í frétt Financial Times um málið kemur fram að greiningaraðilar telja að aðrir farsímaframleiðendur, svo sem Nokia, muni líka finna fyrir því ástandi sem nú er að skapast á mörkuðum heimsins.

Eftir tilkynninguna lækkuðu hlutabréf í Sony um tæp 8%. Þó verður að hafa í huga að ástæða minnkandi hagnaðar Sony er að hluta til að fyrirtækið hefur eytt meira fé í rannsóknir og þróun en áður, en formaður félagsins ítrekaði að Sony stefnir á að verða einn af þremur stærstu farsímaframleiðendum í heimi fyrir 2011. Sony er sem stendur fjórða stærsta farsímafyrirtæki í heimi.