Samdráttur veltu á fasteignamarkaði minnkaði í síðustu viku á höfuðborgarsvæðingu. Þetta má meðal annars sjá á þróun ársbreytingar fjögurra vikna meðalveltu sem sýnd er á meðfylgjandi mynd. Eins og sjá má hefur þróun fjögurra vikna  meðalveltu á milli ára verið neikvæð um margra vikna skeið, en í síðustu viku varð nokkur viðsnúningur. Samdrátturinn á milli ára minnkaði á þennan mælikvarða úr 31% í 19%.

Þrátt fyrir að þetta sé vísbending um jákvæðari þróun á fasteignamarkaði er alls ekki hægt að segja að vísbendingin sé mjög skýr. Veltan nam 2,4 milljörðum króna í síðustu viku og jókst aðeins lítillega frá fyrri viku, eða um 3%. Miklar sveiflur eru á milli vikna á fasteignamarkaði og þess vegna er allt of fljótt að segja til um hvort þetta er aðeins skammtímasveifla eða upphafið á jákvæðari þróun á markaðnum.