*

miðvikudagur, 27. október 2021
Innlent 14. október 2021 11:54

Minnkandi spenna á fasteignamarkaði

Hlutfall íbúða sem seljast á yfirverði heldur áfram að lækka.

Ritstjórn
Í júní seldust 37,5% íbúða í fjölbýli yfir ásettu verði en í ágúst hafði hlutfallið lækkað í 34,4%
Haraldur Guðjónsson

Meira en helmings samdráttur hefur orðið í útgefnum kaupsamningum síðan í mars. Þá var met slegið með 1.107 útgefnum kaupsamningum en fjöldi kaupsamninga var einungis 537 í ágúst, samkvæmt mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þrátt fyrir að verulega hafi dregið úr fjölda kaupsamninga síðan í vor var ágústmánuður óvenju umsvifamikill á höfuðborgarsvæðinu og sá næst umsvifamesti í sögunni í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Takmarkað framboð af húsnæði er talin ein af ástæðum þess að dregið hefur úr fjölda viðskipta á fasteignamarkaði.

Sjá einnig: Seljendur áfram með yfirhöndina 

Þrátt fyrir að íbúðaverð hafi hækkað um 1,4% á höfuðborgarsvæðinu á milli mánaða í ágúst, samkvæmt vísitölu söluverðs HMS, hefur hlutfall íbúða í fjölbýli og sérbýli sem seljast yfir ásettu verði haldið áfram að lækka. Í júní seldust 37,5% íbúða í fjölbýli yfir ásettu verði en í ágúst hafði hlutfallið lækkað í 34,4%. Fyrir sérbýlin lækkaði hlutfallið úr 46,7% í 39,7% á sama tímabili. Svipaða sögu er að segja í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins en hins vegar hefur hlutfallið haldið áfram að hækka annars staðar á landinu.