Nýjar tölur benda til þess að hægt hafi á bata efnahagslífsins á evrusvæðinu. Umsvif í viðskiptalífinu á svæðinu hafa dregist saman í nóvember og hafa nú ekki verið minni í sextán mánuði. Fjallað er um málið á vef Financial Times.

PMI vísitala (e. purchasing mana­gers index) evrusvæðisins fyrir nóvember lækkaði í 51,4 stig úr 52,1 stigi í október. Vísitala hærri en 50 bendir til vaxtar í viðskiptaumsvifum einkageirans en lægri tala en 50 bendir til samdráttar.

Markaðsrannsóknarfyrirtækið Markit finnur út vísitöluna með könnun, sem nær til framleiðslu- og þjónustufyrirtækja á evrusvæðinu.

Chris Williamson, hagfræðingur hjá Markit, segir að niðurstöðurnar séu vonbrigði og bendi til þess að evrusvæðið gæti verið á leið í frekari efnahagslægð. Verðbólga á evrusvæðinu stendur í 0,4% en verðbólgumarkmið Seðlabanka Evrópu er 2%.