Hreinar vaxtatekjur sænska bankans SEB minnkuðu á milli síðasta fjórðungs síðasta árs og fyrsta fjórðungs þessa árs. Greiningardeild Landsbankans segir frá því að þessi þróun sé þvert á það sem hafi átt sér stað hjá öðrum norrænum bönkum.

Stjórnendur bankans segja ástæðu þessa vera minnkandi umsvif bankans á markaðsvæði sínu, þá einkum og sér í lagi í Þýskalandi. Hagnaður bankans dróst saman um 40% milli ára, en uppgjörið var lítillega undir væntingum greininaraðila. Ástæður minnkandi hagnaðar eru fyrst og fremst aukinn kostnaður, niðurfærsla eigna og útlánatap.

„Af stóru norrænu bönkunum virðist bankinn hafa orðið fyrir einna mestum áhrifum af fjármálakrísunni en bankinn er talsvert háður fjárfestingabankastarfsemi," segir í Vegvísi greiningardeildar Landsbankans.