Velta í dagvöruverslun dróst saman um 5,4% á föstu verðlagi í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 11,2% á breytilegu verðlagi. Samkvæmt samantekt rannsóknarseturs verslunar nam samdráttur í verslun, leiðrétt fyrir árstíðarbundnum þáttum, í veltu dagvöruverslana í ágúst 3,3% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 17,5% á síðastliðnum 12 mánuðum.

Sala áfengis minnkaði um 21,2% í ágúst miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi og jókst um 7,1% á breytilegu verðlagi. Verð á áfengi var 35,9% hærra í ágúst síðastliðnum en í sama mánuð í fyrra.

Fataverslun var 11,6% minni í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi en jókst um 16,1% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Í ágúst dróst fataverslun saman um 9% frá mánuðinum á undan á föstu verðlagi. Sumarútsölum virðist hafa vera lokið í ágúst því verð á fötum hækkaði um 6,1% frá mánuðinum á undan.

Velta skóverslunar minnkaði um 6,6% í ágúst á föstu verðlagi og jókst um 11,1% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Verð á skóm hækkaði í ágúst um 4,6% á frá mánuðinum á undan.