Matsfyrirtækið Standard & Poor's (S&P) hefur gefið út að það kunni hugsanlega að lækka lánshæfiseinkunn fjárfestingarfélags Warren Buffett, Berkshire Hathaway, í kjölfar kaupa þess á fyrirtækinu Precision Castparts. CNBC greinir frá þessu.

Berkshire Hathaway keypti fyrirtækið fyrir 32,3 miilljarða dala og mun þurfa að fjármagna kaupin að stórum hluta með reiðufé. Sagði Buffett í viðtali eftir kaupin að 23 milljarðar dala af lausafé fyrirtækisins, sem telur í heild 66,6 milljarða dala, yrðu notaðir til kaupanna.

Laline Carvalho, sérfræðingur hjá S&P, hefur nú sagt að matsfyrirtækið gæti lækkað lánshæfiseinkunnina um eitt eða tvö stig vegna áhrifa kaupanna á stöðu lausafjár í fyrirtækinu. Berkshire Hathaway er nú í flokki AA hjá S&P, sem er þriðja hæsta einkunn matsfyrirtækisins, en lækki einkunnin um tvö stig fer fyrirtækið í flokkinn A-.