Samkvæmt nýjum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði mun taxtahækkun fyrir fullt starf um minnst 90 þúsund krónur á samningstímanum. Hækkunin getur þó orðið meiri en kveðið er á um að launþegum sé tryggður hlutur í verðmætasköpun. Samningurinn gildir til 1. nóvember 2022.

Það fyrirkomulag er nefnt hagvaxtaraukinn og felur í sér launaauka sem nemur hlutdeild í ávinningi þegar landsframleiðsla á hvern íbúa fer yfir ákveðin mörk. Verði hagvöxtur á mann yfir þrjú prósent munu laun hækka um 13 þúsund krónur en lækkar um 2.500 krónur fyrir hvert hálft prósentustig. Hækkunin verður að fullu á taxtalaun en að þremur fjórðu í almennri hækkun. Hagvaxtaraukinn mun taka mið af tölum Hagstofunnar sem birtar eru í mars ár hvert og breyting á launum koma fram tveimur mánuðum síðar.

Við undirritun samningsins hækka laun um 17 þúsund krónur en við það bætist 26 þúsund króna orlofsuppbótarauki sem greiðist út um næstu mánaðarmót. Lágmarkstekjutrygging verður 317 þúsund við upphaf samkomulagsins en hækkar í samræmi við taxtahækkanir á samningstímanum. Verður hún því 368 þúsund árið 2022. Þá er kveðið á um 9 þúsund króna hækkun desemberuppbótar á samningstímanum og 5 þúsund króna orlofsuppbótar.

Í samningunum er einnig kveðið á um styttingu vinnuvikunnar en fyrirkomulag um framkvæmd hennar verður í höndum starfsfólks á hverjum og einum vinnustað. Starfsfólk og stjórnendur munu geta komist að samkomulagi um að stytta vinnuvikuna niður í 36 stundir en einnig má semja um óbreytt fyrirkomulag. Nefnd eru dæmi um útfærslur á þessu, til að mynda að stytta hvern vinnudag um tæpa klukkustund, stytta hvern föstudag eða hafa frí annan hvern föstudag.

Sem kunnugt er gengu samningaviðræður erfiðlega en skriður komst á þær eftir fall WOW air. Miklu virðist hafa munað um leiðir ríkisins til að koma til móts við samningsaðila. Aðgerðir stjórnvalda voru kynntar samhliða samningnum en þær kveða á um alls 42 aðgerðir til stuðnings kjarasamningunum. Áætlað er að heildarumfang aðgerða ríkisins á samningstímabilinu nemi um 80 milljörðum.

Meðal þess sem verður gert er að fæðingarorlof verður lengt í 12 mánuði, barnabætur verði hækkaðar og skerðingarmörk þeirra hækkuð. Einnig verði dregið úr möguleikum á að taka verðtryggð lán og heimilt verði að ráðstafa 3,5% lífeyrisiðgjalds skattfrjálst til húsnæðiskaupa. Þá á eftir að telja fram breytingar á skattkerfinu.

Þá er í samningunum að finna forsenduákvæði um uppsögn þeirra lækki Seðlabanki Íslands ekki stýrivexti. Samningsaðilar eru sammála um vaxtalækkun sé mikilvæg viðspyrna við efnahagsáfalli. Telja þau samninginn skynsamlegan og hóflegan og til þess fallinn að mögulegt verði að lækka vexti.

Lágmarkstekjur fyrir fullt starf

  • 1. apríl 2019 317.000 kr. á mánuði
  • 1. apríl 2020 335.000 kr.
  • 1. janúar 2021 351.000 kr.
  • 1. janúar 2022 368.000 kr

Desemberuppót (var 89.000 kr. 2018)

  • 2019 92.000 kr.
  • 2020 94.000 kr.
  • 2021 96.000 kr.
  • 2022 98.000 kr.

Orlofsuppbót fyrir hvert orlofsár (var 48.000 kr. 2018)

  • 1. maí 2019 50.000 kr.
  • 1. maí 2020 51.000 kr.
  • 1. maí 2021 52.000 kr.
  • 1. maí 2022 53.000 kr.