Samkvæmt niðurstöðum nýrrar viðhorfskönnunar Capacent Gallup eru íbúar Reykjavíkur óánægðastir með þjónustu síns sveitarfélags af íbúum 15 stærstu sveitarfélaga landsins.

Ánægðustu íbúana er að finna í Garðabæ og á Seltjarnarnesi, sem eru, auk Mosfellsbæjar, einu sveitarfélögin sem könnunin tók til og ekki leggja hámarksútsvar á íbúa sína.

Þegar spurt var hversu ánægðir eða óánægðir íbúar væru með sitt sveitarfélag sem stað til að búa á fengu Seltjarnarnes og Reykjanesbær hæstu einkunn, 4,6.

Fjögur sveitarfélög koma svo þar á eftir með einkunnina 4,5, þeirra á meðal Garðabær.

Í neðsta sæti með einkunnina 4,1 situr svo Reykjavík, ásamt Fjarðabyggð og sveitarfélaginu Árborg.

Úrtak könnunarinnar var 4.800 manns en 2.962 íbúar 15 stærstu sveitarfélaganna svöruðu henni. Lagðar voru 11 spurningar fyrir íbúa allra sveitarfélaganna, þar sem íbúar sögðust vera mjög eða frekar ánægðir, eða mjög eða frekar óánægðir, með tiltekna þjónustu sveitarfélagsins – allt frá skólamálum til þjónustu á bæjarskrifstofu.

Út frá svörunum var reiknuð út einkunn fyrir hvern þátt þjónustunnar á kvarðanum 1-5. Sé tekið meðaltal einkunna úr öllum spurningunum sker Reykjavík sig nokkuð úr og situr á botninum með einkunnina 3,24.

Í næstneðsta sæti er Árborg með 3,41.

Reykjavík situr í neðsta sæti þegar spurt er um ánægju með framboð af leikskólaplássum, með 2,8 í einkunn á meðan Mosfellsbær situr í næstneðsta sæti með 3,3.

Þegar spurt er um umhverfismál, skipulagsmál, þjónustu við barnafjölskyldur, þjónustu grunnskóla og leikskóla, fær Reykjavík lægsta einkunn 15 stærstu sveitarfélaganna. Í efsta sætinu lendir Garðabær með 4,10 í einkunn að meðaltali, en Seltjarnarnes er í öðru sæti með 4,01.

Athygli vekur að þau sveitarfélög sem skipa tvö efstu sætin eru einnig þau sem hafa lægst útsvar þeirra sveitarfélaga sem könnunin tók til, en Seltjarnarnes leggur 12,10% útsvar á íbúa sína og Garðabær 12,46%. Leyfilegt hámark í útsvarsálagningu er 13,03% og leggja 12 af þeim 15 sveitarfélögum sem könnunin tók til hámarksútsvar á íbúa sína.