Evrópsk löggæsluyfirvöld leita minnst átta manna vegna hryðjuverkaárása ISIS í París og Brussel. Nöfn þeirra er að finna í ellefu blaðsíðna minnisblaði sem dreift var til lögregluembætta í Evrópu daginn eftir árásirnar í Brussel.

Sjö hinna grunuðu eru taldir hafa tengsl við Abdelhamid Abaaoud, sem var leiðtogi árásanna í París, eða Salah Abdeslam, eina árásarmannsins í París sem lifði árásina af. Þrír hinna grunuðu voru búsettir um lengri eða skemmri tíma í Hollandi, Þýskalandi og Svíþjóð.

Sóttir á hótel af Abdeslam

CNN greinir frá því að einn mannanna heiti Naim al Hamed samkvæmt sýrlenskum skilríkjum. Yfirvöld eru þó ekki sannfærð um að það sé hans raunverulega nafn. Þeir sem rannsaka árásirnar telja að hann hafi, ásamt manni sem notaði fölsuð skilríki undir nafninu Monir Ahmed Alaaj, ferðast frá Sýrlandi til Evrópu í september.

Nokkrum vikum seinna sótti Abdeslam þá á hótel nálægt heimili flóttamanna í Ulm í Þýskalandi og keyrði þá til Brussel. Maðurinn sem notaði nafnið Alaaj var handtekinn þann 18. mars í Brussel.

Sviðsettur dauðdagi?

Annar þeirra grunuðu er belgísk-malískur maður að nafni Yoni Patric Mayne sem vann einu sinni á vídjóleigu í Brussel. Hann hefur lengi verið undir smásjá leyniþjónusta á Vesturlöndum vegna þess að hann fylgdi Abaaoud til Sýrlands árið 2014. Mayne fór fyrst til Sýrlands í apríl 2013. Hann fór aftur til Belgíu og var í varðhaldi um skamman tíma en tókst að komast aftur til Sýrlands.

ISIS-liðar í Raqqa deildu mynd á Twitter í mars 2014 þar sem Mayne leit út fyrir að vera látinn. CNN bendir á að sú staðreynd að hann er talinn upp í minnisblaði evrópskra löggæsluyfirvalda sýni að þau hafi ástæðu til að ætla að andlát hans hafi verið sviðsett.