*

fimmtudagur, 27. júní 2019
Innlent 6. mars 2018 09:44

Minnst traust á borgarstjórn og bönkum

Landhelgisgæslan, forsetaembættið og lögregla í efstu sætum þeirra stofnana sem mest traust er borið til.

Ritstjórn
Borgarstjórn Reykjavíkur er meðal þeirra sem Íslendingar bera minnst traust til samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup
Haraldur Guðjónsson

Almenningur var spurður um traust sitt til ýmissa stofnana samfélagsins í nýjum þjóðarpúlsi Gallup og eru einhverjar breytingar á niðurstöðum frá því í fyrra. Traust til þjóðkirkjunnar, lögreglunnar og dómskerfisins mælist lægra en í fyrra.

Traust til heilbrigðiskerfisins mælist hærra en í fyrra og það sama má segja um þær fimm stofnanir sem mælast með minnst traust, sem eru umboðsmaður skuldara, Alþingi, Fjármálaeftirlitið, borgarstjórn og bankakerfið.

Yfir 90% traust til Landhelgisgæslunnar

Sú stofnun sem flestir bera mikið traust til er eins og hingað til Landhelgisgæslan en hátt í 91% þeirra sem taka afstöðu bera mikið traust til hennar, sem er svipað hlutfall og síðustu ár. Embætti forseta Íslands er í fyrsta skipti í öðru sæti en átta af hverjum tíu bera mikið traust til þess.

Hlutfallið er svipað og í fyrra en þá hafði það hækkað mjög mikið frá árinu á undan, eða um 26 prósentustig. Í þriðja sæti er lögreglan en hlutfall þeirra sem bera mikið traust til hennar er rúmlega 77%. Hlutfallið er nokkuð lægra en í fyrra en þá hafði það hækkað talsvert frá árinu á undan.

Næstu sex stofnanir eru í sömu röð og í fyrra. Slétt 74% bera mikið traust til Háskóla Íslands, sem er svipað hlutfall og síðustu ár. Rúmlega 65% bera mikið traust til heilbrigðiskerfisins, sem er örlítið hærra hlutfall en í fyrra. Ríflega 52% bera mikið traust til umboðsmanns Alþingis, rúmlega 48% til ríkissaksóknara og tæplega 47% til ríkissáttasemjara, sem eru svipuð hlutföll og í fyrra. Nær 36% bera svo mikið traust til dómskerfisins sem er nokkuð lægra hlutfall en í fyrra.

Um þriðjungur treystir Seðlabankanum

Rétt rúmlega 34% bera mikið traust til Seðlabankans en það er svipað hlutfall og í fyrra. Þrír af hverjum tíu bera mikið traust til þjóðkirkjunnar en það er nokkuð lægra hlutfall en í fyrra og fer hún niður um eitt sæti á listanum. Sama hlutfall ber mikið traust til embættis umboðsmanns skuldara en það er nokkuð hærra en í fyrra.

Hlutfall þeirra sem bera mikið traust til næstu fjögurra stofnana á listanum er einnig nokkuð hærra en í fyrra en nokkurn veginn í sömu röð. Tæplega 29% bera mikið traust til Alþingis, 28% til Fjármálaeftirlitsins, hátt í 24% til borgarstjórnar Reykjavíkur og tæplega fimmtungur til bankakerfisins.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is