Atvinnuleysi í Bandaríkjunum lækkaði í 3,9% í apríl sem er minnsta atvinnuleysi sem mælst hefur í 17 ár eða síðan í desember árið 2000. Undanfarna 6 mánuði hefur atvinnuleysi verið 4,1% í Bandaríkjunum að því er The Wall Street Journal greinir frá.

Í apríl urðu til 164.000 ný störf í Bandaríkjunum sem er nokkru minna en en þau 195.000 störf sem greinendur höfðu spáð. Spár fyrir árið 2018 gera ráð fyrir að meðalfjölgun starfa í mánuði verði 200.000.

Fjárfestar hafa þó klórað sér í höfðinu yfir þvi hversu litlar launahækkanir eru að eiga sér stað en á síðustu tólf mánuðum hafa laun aðeins hækkað um 2,6% þrátt fyrir að atvinnuleysi sé orðið mjög lágt í sögulegu samhengi.