Árið 2020 mældist atvinnuþátttaka að jafnaði 79,6%, aðallega vegna áhrifa COVID-19, og hefur hún ekki mælst minni frá upphafi mælinga árið 1991. Er þetta jafnframt í fyrsta sinn sem mælingin er undir 80%. Þetta kemur fram í frétt Hagstofu Íslands .

„Hlutfall starfandi fólks mældist 75,3% árið 2020 og hefur hlutfallið ekki verið lægra síðan árið 2011. Atvinnuleysi mældist 5,5% að jafnaði yfir árið sem er nokkuð minni en lesa má úr tölum Vinnumálastofnunar. Ein ástæða þess er að fleira fólk en áður fellur utan vinnumarkaðar, það er að segja er ekki með starf, leitar ekki að starfi og/eða er ekki tilbúið til að hefja störf innan ákveðins tíma. Eftir sem áður er það án vinnu og mögulega skilgreinir það sig sjálft sem atvinnulaust. Aldrei áður hafa jafn margir verið í þessum hópi en árið 2020 eða um 53.000 manns sem er 20,4% af mannfjölda 16-74 ára," segir í frétt Hagstofunnar.

Fjöldi starfandi á fjórða ársfjórðungi 2020 hafi verið 192.500 manns og hlutfall starfandi af mannfjölda verið 73,8%. Frá fjórða ársfjórðungi 2019 til fjórða ársfjórðungs 2020 hafi starfandi fólki fækkað um 7.200 manns og hlutfall þess af mannfjölda lækkað um 3,2 prósentustig. Hlutfall starfandi hafi ekki mælst jafn lágt á fjórða ársfjórðungi síðan árið 2011 er það var einnig 73,8%.

„Hlutfall starfandi kvenna var 71,2% og starfandi karla 76,2%. Starfandi konum fækkaði um 2.000 og körlum um 5.100. Hlutfall starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu var 74,1% og utan höfuðborgarsvæðis 73,2%. Til samanburðar voru 199.700 starfandi á fjórða ársfjórðungi 2019 og hlutfall af mannfjölda 77,0%. Hlutfall starfandi kvenna var þá 73,9% og starfandi karla 79,8%. Þá var hlutfall starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu 77,3% og 76,4% utan höfuðborgarsvæðisins," segir í fréttinni.