Eftirspurn eftir notuðu íbúðarhúsnæði í Bandaríkjunum dróst saman í ágústmánuði um 4,3%. Á ársgrundvelli nam salan 5,5 milljónum íbúða, sem er það lægsta frá því árið 2002. Miðgildi þess verðs sem íbúðarhúsnæði seldist á í ágúst var 224.500 Bandaríkjadalir, sem var 0,2% hækkun frá því í júlí.

Dow Jones-fréttaveitan hefur eftir hagfræðingnum Ian Shepherdson að þessar niðurstöður séu "á heildina litið mjög slæmar - og það versta er enn ekki yfirstaðið," segir hann. Á sama tíma var einnig greint frá því að væntingavísitala bandarískra neytenda hefði lækkað í 99,8 stig í september, sem er lægsta gildi hennar í tvö ár.