Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 6,2% milli 2017 og 2018, og hefur ekki hækkað minna síðan 2011. Árið áður hafði það hækkað um 18,9%. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans , með vísan í tölur þjóðskrár. Mest var hækkunin á sérbýli, 7,9%, en fjölbýli hækkaði um 5,4%.

Milli mánaða hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 0,1% milli nóvember og desember, þar af fjölbýli um 0,1% og sérbýli um 0,4%.

Sé horft til raunverðs hækkaði íbúðarhúsnæði um 3,1% milli desember 2018 og 2017, og er nú 8,7% hærra en þegar það náði hápunkti fyrir hrun í október 2007. Árshækkun raunverðs árin á undan var til samanburðar 15,5% árið 2017 og 15,9% 2016.

Fasteignaviðskipti voru 7.284 í fyrra, samanborið við 6.912 árið áður, sem er 5,4% fjölgun, en voru þó enn færri en 2016, þegar flest viðskipti voru frá árinu 2009.